Ferill 568. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


154. löggjafarþing 2023–2024.
Þingskjal 867  —  568. mál.




Svar


matvælaráðherra við fyrirspurn frá Valgerði Árnadóttur um eftirlit með velferð búfjár.


     1.      Hvernig hyggst ráðherra bregðast við nýlegri skýrslu Ríkisendurskoðunar þar sem sýnt var fram á að eftirliti Matvælastofnunar með velferð búfjár væri verulega ábótavant?
    Í umræddri skýrslu Ríkisendurskoðunar er alls 13 ábendingum beint til Matvælastofnunar og matvælaráðuneytis. Sex ábendingum er beint til ráðuneytisins, þ.e. að skýra þurfi stefnu um samræmi við erlendar kröfur, endurmeta þurfi kröfur um tilkynningarskylt dýrahald, endurskoða þurfi ábyrgð á skipan yfirdýralæknis, endurskoða þurfi starfsemi og hlutverk fagráðs um velferð dýra, aðkomu ráðuneytisins að innri úttektum stofnunarinnar og gjaldskrá Matvælastofnunar. Í skýrslunni koma fram viðbrögð ráðuneytisins við framangreindum ábendingum. Hvað fyrstu ábendinguna varðar kemur m.a. fram að málefni er varða velferð dýra séu ekki hluti af skuldbindingum Íslands samkvæmt EES-samningnum fyrir utan regluverk um vernd dýra sem notuð eru í vísindaskyni, en sú tilskipun var innleidd með reglugerð nr. 460/2017. Þrátt fyrir framangreint eigi ráðuneytið í reglubundnu samstarfi á alþjóðlegum grundvelli á hinum ýmsu sviðum auk þess sem það taki virkan þátt í norrænu samstarfi og fylgist m.a. með framþróun á málefnasviði dýravelferðar í gegnum samstarfið. Þá var þess getið að opinber stefna stjórnvalda í utanríkismálum væri á forræði utanríkisráðuneytisins sem færi með utanríkismál samkvæmt forsetaúrskurði um skiptingu stjórnarmálefna milli ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.
    Hvað aðrar ábendingar sem beint var til ráðuneytisins varðar um kröfur um skipulag og framkvæmd eftirlits, kröfur um tilkynningarskylt dýrahald, ábyrgð á skipan stjórnenda, starfsemi og hlutverk fagráðs um velferð dýra og aðkomu að innri úttektum benti ráðuneytið á að á þingmálaskrá 154. löggjafarþings mætti sjá að eitt af þeim málum sem ráðherra hyggst leggja fyrir Alþingi sé frumvarp til breytinga á lögum um velferð dýra, nr. 55/2013 (eftirlit). Í umfjöllun um frumvarpið kæmi fram að með því verði lagðar til breytingar er varða eftirlit með velferð dýra m.a. í kjölfar úttektar Ríkisendurskoðunar.
    Hvað varðar síðustu ábendingu til ráðuneytisins um endurskoðun gjaldskrár Matvælastofnunar var tekið fram að ráðuneytið hefði fjármál stofnunarinnar til sérstakrar skoðunar, þar á meðal nýtingu gjaldtökuheimilda.
    Líkt og fyrr segir kemur fram á þingmálaskrá 154. löggjafarþings að matvælaráðherra hyggst leggja fram frumvarp um breytingar á lögum um velferð dýra, nr. 55/2013, í mars 2024. Ráðuneytið er nú að rýna skýrslu Ríkisendurskoðunar og greina hvaða breytingar er nauðsynlegt að ráðast í til að tryggja skilvirkni stjórnsýslu á málefnasviði dýravelferðar. Í framhaldinu verður framangreint frumvarp lagt fram á Alþingi en fyrirhugað er að það verði í mars 2024.

     2.      Telur ráðherra ástæðu til að auka sjálfstæði eftirlits með velferð dýra og efla eftirlitið, t.d. með því að stofna sjálfstætt dýravelferðarsvið sem sinni eftirliti og úrbótum í málaflokknum?
    Samkvæmt lögum um Matvælastofnun, nr. 30/2018, fer stofnunin með stjórnsýslu matvælamála og skal í starfsemi sinni stuðla að neytendavernd, heilbrigði og velferð dýra, heilbrigði plantna og öryggi, heilnæmi og gæðum matvæla. Hlutverk hennar er tilgreint í 2. gr. laganna þar sem fram kemur að einn meginþáttur starfseminnar sé stjórnsýsla og eftirlit, m.a. með dýraheilbrigði og dýravelferð.
    Samkvæmt 1. mgr. 3. gr. laga um Matvælastofnun ber forstjóri stofnunarinnar ábyrgð á starfsemi og rekstri stofnunarinnar, mótar helstu áherslur, verkefni og starfshætti og annast daglega stjórn hennar. Ráðherra skipar sviðsstjóra yfir sérstöku sviði sem fer með málefni dýrasjúkdóma og varna gegn þeim og dýravelferðar, sem lögum samkvæmt skal vera dýralæknir að mennt og nefnast yfirdýralæknir. Yfirdýralæknir er staðgengill forstjóra og fer með faglega yfirstjórn málefna á tveimur starfssviðum, þ.e. sviðum samhæfingar og vettvangseftirlits, en þau lúta m.a. að málefnum dýravelferðar, dýraheilbrigðis, lyfjanotkunar og slátrunar. Önnur svið stofnunarinnar eru stjórnsýslusvið, sem fer með ábyrgð á lögfræðilegum álitaefnum er snúa að starfsemi stofnunarinnar, og upplýsingatækni- og rekstrarsvið. Aðalskrifstofa Matvælastofnunar er á Selfossi en stofnunin starfrækir umdæmisstofur sem sinna eftirlitsstörfum víðs vegar um landið. Þá veita héraðsdýralæknar hverri umdæmisskrifstofu forstöðu ásamt því að sinna m.a. opinberu eftirliti með heilbrigði og velferð dýra. Starfsmenn Matvælastofnunar sem sinna eftirliti með velferð dýra eru einkum eftirlitsdýralæknar og sérhæfðir dýraeftirlitsmenn. Í skýrslu Ríkisendurskoðunar kemur fram að í svörum Matvælastofnunar við fyrirspurn stofnunarinnar hafi komið fram að erfitt væri að greina nákvæmlega hversu mörg stöðugildi tilheyri eftirliti með velferð dýra. Starfsmenn sem koma að þeim málum hafi flestir öðrum starfsskyldum að gegna líka. Eftirlits- og héraðsdýralæknar komi t.d. einnig að eftirliti með matvælaöryggi og heilbrigði og að sama skapi sé það hluti af starfsskyldum eftirlitsdýralækna í sláturhúsum að huga að velferð við meðferð sláturdýra og vernd við aflífun þótt starfsskylda þeirra snúi fyrst og fremst að matvælaöryggi. Sérgreinadýralæknar, sviðsstjórar, lögfræðingar og aðrir yfirmenn Matvælastofnunar koma jafnframt að dýravelferðarmálum, t.d. í tengslum við þvingunaraðgerðir og samningu reglugerða.
    Að framangreindu virtu má sjá að dýravelferð er alltumlykjandi í starfsemi Matvælastofnunar. Líkt og fyrr greinir vinnur ráðuneytið að gerð frumvarps, sbr. svar við 1. tölul. fyrirspurnarinnar, en ekki liggur fyrir endanleg útgáfa þess og því ekki ljóst hvort og þá hvernig skipulag eftirlits með dýravelferð verði breytt ef frumvarpið nær fram að ganga. Áhersla er lögð á að tryggja skilvirkni stjórnsýslu og að þekking hjá mannauði sé vel nýtt.